Heiti verkefnis: 7 venjur kátra krakka
Styrkþegi: 5 ára deild Sjálandsskóla
Verkefnisstjórar: Kristín Júlía Pétursdóttir sérkennslustjóri og Þorbjörg Gísladóttir deildarstjóri.
Ábyrgðarmaður: Elín Ósk Þorsteinsdóttir, leikskólastjóri
Vorið 2025 fengum við úthlutað styrk frá Þróunarsjóði Garðabæjar til að vinna að þessu verkefni: 7 venjur kátra krakka
Markmið verkefnisins er að byggja upp leiðtogafærni starfsfólks og barna í 5 ára deild Sjálandsskóla. Þróunarverkefnið er hugsað sem forvarnarverkefni gegn einelti. 7 venjur fyrir káta krakka (2008) kennir mikilvæg gildi eins og ábyrgð, framsýni, virðingu, samvinnu og jafnvægi. Börnin læra að setja sjálfum sér og öðrum mörk.
Námsefnið kennir börnum til hvers er ætlast af þeim ef þau sýna eða verða vitni af óæskilegri hegðun ásamt því að stuðla að vináttuþjálfun og efla félagsfærni. Lokamarkið er að byggja upp sterka einstaklinga með því að efla félagsfærni, auka tilfinningagreind og virkja viljann til að takast á við áskoranir í lífi og starfi. Hvert barn vinnur út frá sínum eigin styrkleikum og vinnur að því að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Markmiðið er að koma verkefninu þannig fyrir að það verði hluti af daglegu starfi svo það er ekki aðeins tekið fyrir á ákveðnum tímum heldur lifandi plagg sem við vinnum með alla daga í skólanum
Við unnum með bókina 7 venjur fyrir Káta Krakka efir Sean Covey með því að lesa eina sögu í hverri viku og vinna síðan verkefni úr verkefnahefti. Börnin áttu að vinna úr upplýsingum úr sögunni, setja sér markmið eða ímynda sér að þau væru í svipuðum aðstæðum. Í lok hvers kafla eru umræðuspurningar og hver saga var rædd með börnunum og unnið með orðaforðann.
Í upphaf skólaárs gerðum við Vináttusáttmála sem var unnin í samvinnu með öllum börnunum. Við tókum umræðu um óæskilega hegðun og börnin samþykktu á fundi að fara eftir reglunum. Í þeim fólust reglur um hvernig komið er fram við aðra svo öllum líði vel í skólanum.
Vanda Sigurgeirsdóttir hélt tvo fundi með starfsfólki á skipulagsdögum. Á fyrri fundinum 16. September 2024 var rætt um einstaklinginn og við lærðum að kortleggja hvar börn væru stödd félagslega innan barnahópsins og hvernig við gætum aðstoðað þau ef þau væru utan hans eða í hættu á að verða fyrir höfnun frá hinum börnunum. Eftir fundinn ræddi starfsfólk hvert barn og gerð var áætlun fyrir þau börn sem við töldum þurfa aðstoð. Síðan var fundað reglulega og rætt hvernig gengi með þau börn.
Á seinni fundinum með Vöndu 1. nóvember 2024 ræddum við um hópinn og hvernig mætti vinna með vináttuna með hópnum sem heild. Þá ræddum við m.a. samvinnuleiki þar sem börnin læra samvinnu og samkennd. Eftir þann fund var farið með börnunum einu sinni í viku í samvinnuleiki þar sem þau leystu ýmis skemmtileg verkefni í litlum hópum.
Skipulagsdaginn 22. janúar 2025 fengum við fyrirlestur frá sálfræðingnum Aldísi Evu Friðriksdóttur sem ræddi um samkennd í eigin garð. Við ræddum erfiðleika barna í nútímalífi og hvernig við gætum byggt upp sjálfsmynd barnanna svo þau gætu tekist á við erfiðleika. Í kjölfarið unnum við með börnunum að kenna þeim að hrósa sér og öðrum. Við einblíndum á styrkleika þeirra og að þau mættu vera stolt af sjálfum sér. Þetta tengdist líka sögunum úr 7 venjur fyrir káta krakka þar sem börn læra að þau sjálf geta fundið lausn og tekist á við erfiðar aðstæður.
Annað námsefni sem var notað voru spjöldin úr tösku Blæs frá Vináttu Barnaheilla og bókin Má ég vera memm? (2003) eftir Hörpu Lúthersdóttur sem kennir börnum að þekkja og koma í veg fyrir einelti. Við lásum líka fyrir börnin úr bókaflokknum Hugarperlur frá útgáfunni Oran sem kennir börnum að takast á við erfiðar aðstæður og tilfinningar. Þessar bækur voru lesnar bæði fyrir einstaklinga og stærri hóp af börnum.
Við vorum með mörg verkefni í gangi og stundum náðist ekki að gera æfingar í hverri viku. Það var líka rætt um það á fundi að næst yrði unnið enn dýpra með námsefnið og í samvinnu með foreldrum svo börnin myndu fá meiri æfingu í gildunum sem kennd eru í 7 venjur fyrir káta krakka.
Það er mikilvægt að unnið sé með sjálfsmynd barna og félagsfærni og það er frábært nesti sem þau hafa með sér í grunnskólann. Við sáum orðaforða barnanna aukast gangvart félagsfærni og þau lærðu að setja sér og öðrum mörk. Börnin lærðu mikið af orðaforðum og leikjunum sem þeim var kennt. Jafnframt sóttu mörg börn sjálf í bækurnar og námsefnið sem var í boði og ræddu við kennara sem sýndi að þau höfðu áhuga á námsefninu.
Starfsfólkið lærði mikið af þessu verkefni og fræðslan sem við fengum mun nýtast okkur áfram í starfi. Börnin lærðu samkennd og félagsfærni, lærðu um mikilvæg gildi eins og ábyrgð, framsýni, virðingu, samvinnu og jafnvægi. Gildi sem eru tímalaus, alþjóðleg og sjálfstæð og munu án efa nýtast þeim á öðrum stigum.
Laun sérfræðinga og ráðgjafa / námskeið , samtals
1.250.000
Efniskaup: 200.000
Samtals: 1.450.000